mánudagur, 30. október 2006

Jæja þá er kominn tími á færslu hingað inn. Þetta gengur bara fínt, ég finn alveg mun á sjálfri mér. Sé mun í andlitinu á mér, það er farið að grennast og svo auðvitað finn ég mun á buxunum. Buxurnar sem ég keypti nú í síðasta mánuði, eru orðnar svolítið víðar á mig. Ég hef ekki haft það fyrir reglu að kaupa mér jólaföt, en ég held ég verðlauni sjálfa mig fyrir þessi jól og kaupi mér eitthvað sætt á mig í Evans í desember.

Ég fór á vigtina hérna heima áðan og mér sýnist að skekkjumörkin á milli hennar og vigtarinnar sem er notuð hjá Akademíunni séu um 2 kg - vigtin hjá akademíunni sýnir minni töluna. En vigtin hérna heima sýndi núna áðan 129.8. En þetta kemur betur í ljós í næstu mælingu sem ég held að sé 15. nóvember.

Annars líður mér bara vel, er farin að innbyrða miklu færri kaloríur yfir daginn (tel þær samt ekki). Ég verð mjög sjaldan mjög svöng, en borða nú samt en ég þarf ekki að hafa áhyggjur af brennslunni, því Reductilið virkar þannig að það viðheldur brennslunni í líkamanum.

Ég fékk mér köku á laugardagskvöldið, mamma átti afmæli og ég var búin að "spara mig" en annars hefur ekkert nammi fengið að koma inn fyrir mínar varir síðustu vikur og ég fattaði í gærkvöldi að ég hafði ekkert Pepsi Max fengið mér en ég leyfi mér það á laugardögum :).

Jæja læt þetta duga núna.

Kveðja,
Kisubolla

mánudagur, 23. október 2006

Það er kominn tími á smá updeit. Ég fór ekkert út í gær...æi bara hreinlega nennti því ekki skal alveg viðurkenna það. En á laugardaginn fórum við Gunnar í góðan hjólatúr, hjóluðum í 1 klst og 15 mín og það var meðal annars hjólað upp á Leifsstöð. Svo fór ég aftur að hjóla áðan og hjólaði í 50 mínútur, hjólaði næstum því sama hring og ég Gunnar fórum nema ég bætti við hring innanbæjar (Keflavíkur) og fór ekki upp á Leifsstöð, beygði í hina áttina á Reykjanesbrautinni. Æi ég veit þetta er ruglingslegt en ég nenni ekki að útlista þennan hring eitthvað frekar...þarf að fara að elda kvöldmat hérna! En alla vega tók ég vel á og mér líður alveg rosalega vel.

Kveðja,
Kisubolla

föstudagur, 20. október 2006

Uppfærður teljari...

Jæja þá er mæling númer tvö búin og þessi vigt sem er þar er greinilega ekki sammála minni þannig að ég nota bara tölurnar úr mælingunum framvegis. En allt er samt á niðurleið og mest fóru cm af mér núna og ég finn það alveg. Annars er þetta dagur númer tvö á Reductil og þetta er mjög skrítið, ég hugsa ekki nærri því eins mikið um mat og verð ekki nærri því eins mikið og oft svöng. Reyndar þarf ég að borða reglulega en núna fæ ég mér bara smá og smá.

Verður gaman að sjá hvernig árangurinn verður eftir kannski tvær vikur.

þriðjudagur, 10. október 2006

Rosalega er þetta pirrandi!! Þetta er þriðja tilraun mín að blogga eitt blogg!! Here goes.....
Ég fór ekki í sund í gær eins og hreyfimarkmið vikunnar gera ráð fyrir, ástæðan er sú að ég er ennþá með kvef ofan í mér og ég vil ekki fara í sund á meðan það er til staðar. Í staðin fór ég í langan og góðan hjólatúr, hjólaði út í Innri Njarðvík og þeir sem þekkja mig og vita hvar ég bý, vita að þetta er ansi langur hjólatúr. En ég fer aftur í kvöld, mér finnst þetta mjög hressandi og fínt. Ég hreyfi mig á kvöldin núna því ég verð að nota daginn til að læra á meðan Jóhanna Arna sefur. Enda skiptir svo sem ekki máli hvenær dags ég hreyfi mig, aðalatriðið að ég hreyfi mig.
Ég er núna búin að vera nammilaus í þrjár vikur og líður bara mjög vel, lítil sem engin löngun í nammi. Ég leyfi mér Pepsi Max á laugardögum samt, hina dagana drekk ég vatn og sódavatn og já kaffi :) . Ég er ekkert búin að vigta mig í dag og ætla ekki að vigta mig fyrr en á mánudaginn, það er ekkert hollt að vigta sig of oft...því ef maður stendur í stað eins og ég hef verið að gera fer maður að gefast upp. En góðir hlutir gerast HÆGT!
Ég er farin að borða miklu meira grænmeti og fisk en ég hef gert. Er að spá í að hafa einhvern góðan og léttan kjúkling um helgina og búa til skyrtertu a la Ágústa Johnson ;)
Jæja ég læt þetta duga í bili!
Kveðja,
Kisubolla

föstudagur, 6. október 2006

Næsta mæling hjá Akademíunni verður að ég held eftir 2 vikur. Við erum mældar í 1 viku, 4 viku, 8. viku og 12. viku. Þannig að ef þetta stenst þá ættum við að vera mældar í kringum 19. október. Mig langar svolítið í sund í kvöld en ég held að það sé ekkert voðalega sniðugt með kvefið mitt, held að það sé best að vera alla vega laus við kvefið í lungunum. Þannig að niðurstaðan er sú að ég ætla að annað hvort í góðan göngutúr í dag eða hjóla.
Kveðja,
Kisubolla

fimmtudagur, 5. október 2006

Ég fór út í góðan hjólatúr núna áðan. Hjólaði niður að Duus, fór svo upp alla Hafnargötuna og hjólaði að Stapanum og fór þangað til baka, framhjá Hjallatúni, Íþróttaakademíunni, fór niður Hringbrautina, niður Aðalgötuna og inn Garðaveginn heim :)

Þetta var mjög hressandi og fínt.
Ég fór til læknis í morgun og fékk fjölnota lyfseðil fyrir Reductil. Svo fékk ég plagg fyrir TR útaf lyfjaskirteininu. Fæ það vonandi eftir ca 10 daga. Ég þurfti að fara í Lyfju því ég þurfti að leysa út sýklalyf (er með kvef ofan í mér) og ég spurði hvað það myndi kosta mig ef ég leysti út fyrsta skammtinn núna án lyfjakortsins (3 mánuðir) og já það myndi kosta mig 29 þúsund!! Ég held ég bíði eftir lyfjakortinu.
Ég fór auðvitað fótgangandi til læknisins, fór þaðan í TR (Sýslumann) og þaðan í Lyfju og svo heim. Einn góður hringur fótgangandi. Er að spá í að hjóla spotta í kvöld. Ég ætla að fara í bæinn á morgun, alla vega reyna það því ég þarf svo íþróttabuxur og það er búið að taka frá fyrir mig tvö stykki í Evans.
Jæja ég læt þetta duga í bili!
Kveðja,
Kisulóra

miðvikudagur, 4. október 2006

Vigtin stendur í stað eins og er, en ég finn samt mun á sjálfri mér. Líkaminn er greinlega í einhverri úthreinsun þar sem andlitið mitt er andsetið bólum! Þetta er víst eðlilegt og ég hef græði fallegri húð í staðin. Ég fer til læknis á morgun, sem er ágætt því ég er að fá einhverja drullu ofan í mig þannig að ég bið hann um að kíkja það ásamt að biðja um Reductil. Ég hef ekki farið út að labba í dag, en það er bara af því ég er svo svakalega orkulítil og þreytt. Svaf lítið í nótt vegna hósta og svo var Jóhanna Arna sívaknandi líka en hún er búin að vera lasin. Ég ætlaði að fara í gönguna í dag með vinnunni, en ég verð bara að fresta því...hef bara enga orku og þá orku sem ég fæ vil ég nýta í lærdóm.
Ég þurfti virkilega að taka á mínum stóra áðan. Sá kexpakka inn í skáp sem ég vissi ekki að væri til. Hélt ég væri búin að hreinsa allt svona út úr skápnum, en ég lét hann vera. Vissi að mér myndi ekki nægja að fá mér eina...þær yrðu tvær, þrjár, fjórar, tuttugu...allur pakkinn! Ég hugsa að ég sleppi öllu svona þangað til ég treysti mér að hætta áður en það klárast. Þannig að á laugardaginn ætla ég að elda eitthvað voðalega gott í kvöldmatinn og leyfa mér að fá Pepsi Max.
Svo er ég búin vera að leita af sodastream flöskum hérna í Keflavík og þær eru bara ekki til! Ætla að tékka í bænum kannski um helgina. Mér finnst voðalega gott að geta fengið mér sódavatn til að taka á gosþörfinni.
Jæja læt þetta duga í bili
Kveðja,
Kisubolla

mánudagur, 2. október 2006

Gleymdi að segja frá tölunum úr mælingunni á fimmtudaginn. En þá var kólestról, blósykur og blóþrýstingur mældur.

Blóðþrýstingurinn var 133/81
Blóðsykurinn var 6.6 - tek það fram að ég var nýbúin að borða hafragraut með berjum
Kólestról var 4.12 - sem er bara mjög fínt. Sá sem mældi var eiginlega hálfhissa að ég skuli hafa mælst með svona lítið kólestról miðað við þyngd. Ég var með minna kólestról en aðstoðarmatráðurinn sem er frekar grönn og í góðu formi.
Uppfærsla á teljaranum - verður gaman að sjá hvað vigtin og ummálsmælingin hjá akademíunni segir næst þegar við verðum mældar.



Ég fór í afmæli á laugardaginn og var búin að ákveða að leyfa mér að fá mér kökur, samt ekkert mikið. En þegar ég loksins fékk mér. leið mér eins og ég væri að stelast að fá mér. Leið eins og einhver stæði yfir mér með þvílíkum vanþóknunarsvip. En greinlega er maginn að minnka því ég varð södd frekar fljótt. Borðaði mest að flatkökum með hangikjöti.